Vorið kom hér á NZ í september s.l., með blómum, grænu grasi og fullt af lömbum. Nýttum við hækkandi sól og tókum göngutúra umhverfis Taupo; gengum Mt. Tauhara sem er bæjarfjallið og fórum fyrstu strandferðirnar niður að vatni. Snjórinn bráðnaði óðum af eldfjöllunum í kring um okkur og tókum við rúnt með Elínu Rósu og Ragnari upp á Mt. Ruapehu skíðasvæðið en fjallið er eitt eldfjallanna hinum megin við vatnið. Krakkarnir skemmtu sér konunglega í snjónum enda nóg af brekkum til að renna sér. Skruppum við fjölskyldan svo til Wellington þar sem Júlía tók vinnutörn í Victoriu háskóla, og við feðgarnir skemmtum okkur á meðan. Tókum við sporvagninn upp í Lystigarð borgarinnar sem var mjög flottur. Að sjálfsögðu kíktum við líka upp í dýragarðinn og sáum allskonar kvikindi, allt frá björnum, ljónum og dingo-hundum, til blá mörgæsa, kiwi fugla og markatta. Enduðum við borgarferðina á Safni Nýja Sjálands; Te Papa Tongarewa, sem Íslendingar ættu að taka sér til fyrirmyndar og setja upp heima. Við flúðum hluta úr síðasta vetri hér á Nýja Sjálandi og fórum í nokkra vikna heimsókn, heim á Frón. Ekki var það þó vegna veðurs, sem var frekar milt þetta árið. Og þó, fyrir vetrinum finnur maður aðallega innandyra, þar sem húsin eru flest hver illa einangruð hér syðra og því oft á tíðum sami hiti inni og úti. Vöknuðum við oft á morgnana í um 5 gráðum, svo maður varð bara að vera fljótur að gúffa í sig grautinn og fara út í sólina til að hlýja sér!
En Íslandsferðin gekk mjög vel í alla staði, og gott að fá smá frí í faðmi fjölskyldu og vina. Hérna koma nokkrar myndir sem lýsa vel vetrinum á Nýja Sjálandi og sumrinu heima á Fróni á s.l. ári. Margt er líkt með löndunum tveimur, en við fórum til Íslands í byrjun júní á fyrstu dögum vetrar, úr 12°C og rigningu og lentum í Reykjavík í 12°C og skúraveðri. Hér fylgja nokkrar myndir: Í mars síðastliðnum hóf Halldór skólagönguna. Fékk hann inni í Hilltop skólanum hér í hverfinu okkar. Þetta er mjög fínn skóli, og vildi svo skemmtilega til að hann lenti í bekk með öðrum Íslendingi. Elín Rósa heitir hún og eru þau orðnir góðir vinir og hjálpast að í skólanum. Haustið er farið að lita umhverfið, en ágætis stormur gekk yfir bæinn og rafmagnið fór af stórum hluta nágrennisins vegna þess að tré féllu víða og einstaka á rafmagnslínur. Tókum göngutúra hér um nágrenni bæjarins; kíktum við í Spa Park í Taupo, en þar er að finna heitan jarðhitalæk sem hægt er að baða í. Einnig löbbuðum við um Acacia Bay og fylgdumst með sólsetrinu og bátunum sigla framhjá í blíðviðrinu.
Við fjölskyldan náðum að ferðast nokkuð síðustu vikurnar. Bruce, leiðbeinandi Júlíu skutlaði okkur til Napier, bæjar á austurströndinni. Þar sáum við Kyrrahafið í fyrsta sinn. Skoðuðum sædýrasafnið þar sem hægt var að ganga undir hákarlabúrið. Dagana á eftir lentum við á sjúkrahúsinu í Hamilton þar sem Júlía þurfti að gangast undir læknishendur vegna bólgna í taugakerfinu. Fengum að fara heim og jafna okkur eftir 8 daga á spítalanum, en fórum í smá túr á vesturströndina við Paraparaumu stuttu seinna. Halldóri fannst frábært að leika á ströndinni eftir öll leiðindin á spítalanum, en hann stóð sig eins og hetja og var mjög stilltur. Drengurinn varð svo fimm ára og fékk auðvitað nokkra pakka frá fjölskyldu og vinum og varð mjög glaður. Við feðgarnir bökuðum köku til að fara með á leikskólann.
Skruppum svo um miðjan Mars til Aucklandborgar þar sem við Halldór fengum framlengingu á vegabréfunum hjá ræðismanni Íslands. Það var erfitt að finna skrifstofuna þar sem skjaldarmerki Íslands var rétt ofan ruslatunnu hússins. Enduðum svo í dýragarðinum og skoðuðum mörg framandi dýr, m.a. Kiwi fuglinn, sem er ófleygur og sést sjaldan til hans hér á Nýja Sjálandi. Febrúar var stormasamur og greinilega haustið að ganga í garð hér í Taupo. Veðrið hefur verið mjög sérstakt hér á Norðurey, gengu yfir hitabeltislægðir með skýstrókum við Auckland og smá hvirfilbyl hér í miðbæ Taupo sem olli þó ekki miklum usla. Stórkostleg þrumuveður gengu yfir alla eynna, og fylgdi mikil sýning eldinga hér umhverfis bæinn. Sólin skein þó inn á milli og fengum við Júlía að sjá Tomma og Jenna í aksjóni. Lítil mús kom í heimsókn hér við húsið okkar og gaf Júlía litla greyinu smá ostbita að borða. Kötturinn í kjallaranum, Patches kom svo út í garð og sá músarangann. Eltingarleikurinn stóð ekki lengi yfir og náði kötturinn henni skjótt. Gott miðdegissnakk þar.
Halldór nýtti svo góða veðrið vel inn á milli stormanna og lék sér mikið úti í kring um húsið. Skin og skúrir einkenndu janúar hjá okkur á Birkistræti í Taupo, bæði tilfinningalega og veðurfarslega. Við reyndum þó að gera það besta úr öllu saman og nýta góðu dagana sem best. Fórum við mikið á strandir Taupo vatns þegar viðraði vel. Við gengum umhverfis Grænsteinsvatn (Rotopounamu) í Tongariro þjóðgarðinum. Ekkert afrennsli er úr vatninu og í rigningunum undanfarið hækkaði mikið í vatninu og því varð megnið af göngutúrnum frekar blautur.
Rúntuðum einn laugardaginn til Rotorua í norðri. Bærinn byggðist upp við jarðhitasvæði og fann maður gamla góða brennisteinsfnykinn í miðbænum. Endaði mánuðurinn svo á óvæntri heimsókn. Halldór litli rak augun í gestinn yfir morgunmatnum, en þá var hann, um tveggja sentímetra langur, sitjandi á einum stólnum við matarborðið. Kakkalakkar, þessi ~300 milljón ára gamla dýrategund er með þeim elstu núlifandi á jörðinni og eru þau gríðarlega lífseig kvikindi. Því hafði ég það ekki í mér að drepa greyið og sleppti því lausu úti. Desember gekk í garð hér á Nýja Sjálandi með seríu hitabeltisstorma. Mánuðurinn byrjaði með látum, þar sem rigndi svo mikið að flóð urðu víða um land. Þá er gott að búa á gígbarmi ofureldfjalls, með nokkurra tuga þykk glopin gjóskujarðlög...
Leikskólinn hans Halldórs tók þátt í jóla-skrúðgöngunni í ár. Fengu þau til liðs við sig flutningabíl sem skreyttur var með All Blacks (rúbbí-landsliðið) þema. Skrúðgangan fór svo fram í miðbænum og auðvitað sást til jólasveinsins. Við héldum jólin að sjálfsögðu að íslenskum sið, skreyttum jólatré og settum upp jólaljós. Elduðum reykta skinku á aðfangadag, og tókum svo upp pakkana með stórfjölskylduna á línunni. Fórum í jóladagsboð til Bruce Mountain, leiðbeinanda Júlíu þar sem hann bauð okkur ásamt fleiri vinnufélögum til kalkúns. Áramótin voru mjög blaut, svo ekki var mikið sprengt af flugeldum í ár. Enda kom á daginn að veðrakerfið þetta árið heitir La Ninja, sem eykur tíðni rigningaveðurs hér. Velkomin í Paradís, voru kveðjurnar sem við fengum frá góðu körlunum í Hjálpræðishernum þegar þeir komu með nokkur húsgögn heim í hlað til okkar nú fyrr í vor. Við erum smátt og smátt að gera okkur grein fyrir því hvað þeir áttu við. Veðrið er orðið fantastisk eins og Austmenn myndu orða það. Upplifðum furðulegan frídag í hinu Breska konungsríki: "Guy Fawkes Night" en fagna menn því kvöldi almennt með flugeldasýningum og bálköstum. Nýttum Nóvember annars vel; dittuðum að grænmetis og jarðaberja plöntunum sem vaxa hratt, elduðum lambakjöt að íslenskum sið og skoðuðum okkur um í náttúrunni. Gengum á Mt. Tauhara (Esju bæjarins) í mánuðinum, ásamt dagsferð að Orakei Korako Geyserland sem endaði svo með baðferð í jarðhita-ána Kerosene Creek, rétt utan Rotorua.
Fundum hús á Birch Street (Birki stræti) í byrjun október, hálfum mánuði eftir komu okkar til Nýja Sjálands. Redduðum okkur gamalli Toyotu Corollu og fórum í nokkrar ferðir út úr bænum, meðal annars til höfuðborgarinnar Wellington og Hamilton þar sem tölvugarmurinn fór í viðgerð. Halldór pantaði ferð upp í fjöll til að sjá snjó og keyrðum við upp á skíðasvæðið í fjallinu Ruapehu. Sáum Kiwiana vinna heimsmeistaramótið í rúbbý á risaskjá niður í bæ. Veðrið skánaði mikið með hverjum deginum og plöntuðum við nokkrum tómat, papríku og jarðaberja græðlingum í potta.
Nú þegar við fjölskyldan erum flutt til Nýja Sjálands, þá finnst mér alveg sjálfsagt að halda smá dagbók (eða blogg) um það sem á daga okkar drífur hér undir niðri. En þar sem veraldarvefurinn er uppfullur af blaðri hef ég ákveðið að láta frekar myndir tala mínu máli.
Við fluttum til Nýja Sjálands nú í haust. Það hefur tekið okkur drjúgan tíma að koma okkur fyrir og ná áttum, fá landvistarleyfi. Það er náttúrulega ekki eðlilegt að vaka á nóttunni, horfa til sólar í norðri um hádegisbilið, hugsa til jólanna að sumri til og keyra um öfugu megin á veginum. Hér koma nokkrar myndir sem teknar voru á ferðalaginu hingað og dagana eftir í September mánuði: |
Helgi Arnar
Skagfirðingur Archives
March 2013
CategoriesMyndirnar á flickr
_© Helgi Arnar Alfredsson
Please respect copyright. |