Velkomin í Paradís, voru kveðjurnar sem við fengum frá góðu körlunum í Hjálpræðishernum þegar þeir komu með nokkur húsgögn heim í hlað til okkar nú fyrr í vor. Við erum smátt og smátt að gera okkur grein fyrir því hvað þeir áttu við. Veðrið er orðið fantastisk eins og Austmenn myndu orða það. Upplifðum furðulegan frídag í hinu Breska konungsríki: "Guy Fawkes Night" en fagna menn því kvöldi almennt með flugeldasýningum og bálköstum. Nýttum Nóvember annars vel; dittuðum að grænmetis og jarðaberja plöntunum sem vaxa hratt, elduðum lambakjöt að íslenskum sið og skoðuðum okkur um í náttúrunni. Gengum á Mt. Tauhara (Esju bæjarins) í mánuðinum, ásamt dagsferð að Orakei Korako Geyserland sem endaði svo með baðferð í jarðhita-ána Kerosene Creek, rétt utan Rotorua.
Fundum hús á Birch Street (Birki stræti) í byrjun október, hálfum mánuði eftir komu okkar til Nýja Sjálands. Redduðum okkur gamalli Toyotu Corollu og fórum í nokkrar ferðir út úr bænum, meðal annars til höfuðborgarinnar Wellington og Hamilton þar sem tölvugarmurinn fór í viðgerð. Halldór pantaði ferð upp í fjöll til að sjá snjó og keyrðum við upp á skíðasvæðið í fjallinu Ruapehu. Sáum Kiwiana vinna heimsmeistaramótið í rúbbý á risaskjá niður í bæ. Veðrið skánaði mikið með hverjum deginum og plöntuðum við nokkrum tómat, papríku og jarðaberja græðlingum í potta.
Nú þegar við fjölskyldan erum flutt til Nýja Sjálands, þá finnst mér alveg sjálfsagt að halda smá dagbók (eða blogg) um það sem á daga okkar drífur hér undir niðri. En þar sem veraldarvefurinn er uppfullur af blaðri hef ég ákveðið að láta frekar myndir tala mínu máli.
Við fluttum til Nýja Sjálands nú í haust. Það hefur tekið okkur drjúgan tíma að koma okkur fyrir og ná áttum, fá landvistarleyfi. Það er náttúrulega ekki eðlilegt að vaka á nóttunni, horfa til sólar í norðri um hádegisbilið, hugsa til jólanna að sumri til og keyra um öfugu megin á veginum. Hér koma nokkrar myndir sem teknar voru á ferðalaginu hingað og dagana eftir í September mánuði: |
Helgi Arnar
Skagfirðingur Archives
March 2013
CategoriesMyndirnar á flickr
_© Helgi Arnar Alfredsson
Please respect copyright. |