Vorið kom hér á NZ í september s.l., með blómum, grænu grasi og fullt af lömbum. Nýttum við hækkandi sól og tókum göngutúra umhverfis Taupo; gengum Mt. Tauhara sem er bæjarfjallið og fórum fyrstu strandferðirnar niður að vatni. Snjórinn bráðnaði óðum af eldfjöllunum í kring um okkur og tókum við rúnt með Elínu Rósu og Ragnari upp á Mt. Ruapehu skíðasvæðið en fjallið er eitt eldfjallanna hinum megin við vatnið. Krakkarnir skemmtu sér konunglega í snjónum enda nóg af brekkum til að renna sér. Skruppum við fjölskyldan svo til Wellington þar sem Júlía tók vinnutörn í Victoriu háskóla, og við feðgarnir skemmtum okkur á meðan. Tókum við sporvagninn upp í Lystigarð borgarinnar sem var mjög flottur. Að sjálfsögðu kíktum við líka upp í dýragarðinn og sáum allskonar kvikindi, allt frá björnum, ljónum og dingo-hundum, til blá mörgæsa, kiwi fugla og markatta. Enduðum við borgarferðina á Safni Nýja Sjálands; Te Papa Tongarewa, sem Íslendingar ættu að taka sér til fyrirmyndar og setja upp heima. Febrúar var stormasamur og greinilega haustið að ganga í garð hér í Taupo. Veðrið hefur verið mjög sérstakt hér á Norðurey, gengu yfir hitabeltislægðir með skýstrókum við Auckland og smá hvirfilbyl hér í miðbæ Taupo sem olli þó ekki miklum usla. Stórkostleg þrumuveður gengu yfir alla eynna, og fylgdi mikil sýning eldinga hér umhverfis bæinn. Sólin skein þó inn á milli og fengum við Júlía að sjá Tomma og Jenna í aksjóni. Lítil mús kom í heimsókn hér við húsið okkar og gaf Júlía litla greyinu smá ostbita að borða. Kötturinn í kjallaranum, Patches kom svo út í garð og sá músarangann. Eltingarleikurinn stóð ekki lengi yfir og náði kötturinn henni skjótt. Gott miðdegissnakk þar.
Halldór nýtti svo góða veðrið vel inn á milli stormanna og lék sér mikið úti í kring um húsið. Skin og skúrir einkenndu janúar hjá okkur á Birkistræti í Taupo, bæði tilfinningalega og veðurfarslega. Við reyndum þó að gera það besta úr öllu saman og nýta góðu dagana sem best. Fórum við mikið á strandir Taupo vatns þegar viðraði vel. Við gengum umhverfis Grænsteinsvatn (Rotopounamu) í Tongariro þjóðgarðinum. Ekkert afrennsli er úr vatninu og í rigningunum undanfarið hækkaði mikið í vatninu og því varð megnið af göngutúrnum frekar blautur.
Rúntuðum einn laugardaginn til Rotorua í norðri. Bærinn byggðist upp við jarðhitasvæði og fann maður gamla góða brennisteinsfnykinn í miðbænum. Endaði mánuðurinn svo á óvæntri heimsókn. Halldór litli rak augun í gestinn yfir morgunmatnum, en þá var hann, um tveggja sentímetra langur, sitjandi á einum stólnum við matarborðið. Kakkalakkar, þessi ~300 milljón ára gamla dýrategund er með þeim elstu núlifandi á jörðinni og eru þau gríðarlega lífseig kvikindi. Því hafði ég það ekki í mér að drepa greyið og sleppti því lausu úti. Desember gekk í garð hér á Nýja Sjálandi með seríu hitabeltisstorma. Mánuðurinn byrjaði með látum, þar sem rigndi svo mikið að flóð urðu víða um land. Þá er gott að búa á gígbarmi ofureldfjalls, með nokkurra tuga þykk glopin gjóskujarðlög...
Leikskólinn hans Halldórs tók þátt í jóla-skrúðgöngunni í ár. Fengu þau til liðs við sig flutningabíl sem skreyttur var með All Blacks (rúbbí-landsliðið) þema. Skrúðgangan fór svo fram í miðbænum og auðvitað sást til jólasveinsins. Við héldum jólin að sjálfsögðu að íslenskum sið, skreyttum jólatré og settum upp jólaljós. Elduðum reykta skinku á aðfangadag, og tókum svo upp pakkana með stórfjölskylduna á línunni. Fórum í jóladagsboð til Bruce Mountain, leiðbeinanda Júlíu þar sem hann bauð okkur ásamt fleiri vinnufélögum til kalkúns. Áramótin voru mjög blaut, svo ekki var mikið sprengt af flugeldum í ár. Enda kom á daginn að veðrakerfið þetta árið heitir La Ninja, sem eykur tíðni rigningaveðurs hér. Velkomin í Paradís, voru kveðjurnar sem við fengum frá góðu körlunum í Hjálpræðishernum þegar þeir komu með nokkur húsgögn heim í hlað til okkar nú fyrr í vor. Við erum smátt og smátt að gera okkur grein fyrir því hvað þeir áttu við. Veðrið er orðið fantastisk eins og Austmenn myndu orða það. Upplifðum furðulegan frídag í hinu Breska konungsríki: "Guy Fawkes Night" en fagna menn því kvöldi almennt með flugeldasýningum og bálköstum. Nýttum Nóvember annars vel; dittuðum að grænmetis og jarðaberja plöntunum sem vaxa hratt, elduðum lambakjöt að íslenskum sið og skoðuðum okkur um í náttúrunni. Gengum á Mt. Tauhara (Esju bæjarins) í mánuðinum, ásamt dagsferð að Orakei Korako Geyserland sem endaði svo með baðferð í jarðhita-ána Kerosene Creek, rétt utan Rotorua.
Nú þegar við fjölskyldan erum flutt til Nýja Sjálands, þá finnst mér alveg sjálfsagt að halda smá dagbók (eða blogg) um það sem á daga okkar drífur hér undir niðri. En þar sem veraldarvefurinn er uppfullur af blaðri hef ég ákveðið að láta frekar myndir tala mínu máli.
Við fluttum til Nýja Sjálands nú í haust. Það hefur tekið okkur drjúgan tíma að koma okkur fyrir og ná áttum, fá landvistarleyfi. Það er náttúrulega ekki eðlilegt að vaka á nóttunni, horfa til sólar í norðri um hádegisbilið, hugsa til jólanna að sumri til og keyra um öfugu megin á veginum. Hér koma nokkrar myndir sem teknar voru á ferðalaginu hingað og dagana eftir í September mánuði: |
Helgi Arnar
Skagfirðingur Archives
March 2013
CategoriesMyndirnar á flickr
_© Helgi Arnar Alfredsson
Please respect copyright. |